Erlent

Kúveiskar konur fá kosningarétt

Konur munu fá að taka þátt í kosningum í Kúveit í framtíðinni. Það er, þær geta bæði kosið og boðið sig fram. Tillaga um að konur fengju að taka þátt í kosningunum hefur verið til umræðu innan kúveiska þingsins undanfarnar vikur og hefur ekki gengið þrautalaust að fá hana samþykkta. Tillagan var samþykkt í fyrstu atkvæðagreiðslu fyrir um mánuði en í annarri umferð tveimur vikum síðar var hún hins vegar felld því ekki náðist hreinn meirihluti. Þar með varð ljóst að konur gætu ekki tekið þátt í sveitarstjórnarkosningunum sem fram eiga að fara í landinu þann 2. júní næstkomandi vegna tímaskorts. Þegar kosið var í þriðja sinn um tillöguna í dag var hún hins vegar samþykkt og brutust út gríðarleg fagnaðarlæti í landinu í kjölfarið. Búist er við að konur geti þar með tekið þátt í sveitarstjórnarkosningum sem fyrirhugaðar eru í Kúveit að tveimur árum liðnum. Af fimmtíu og níu þingmönnum sem greiddu atkvæði voru þrjátíu og fimm fylgjandi tillögunni, tuttugu og þrír á móti og einn skilaði auðu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×