Erlent

Sjálfstæðisafmæli fagnað

Austurríkismenn minntust þess í dag að hálf öld er liðin frá því að landið öðlaðist aftur sjálfstæði í kjölfar þess að bandamenn úr síðari heimsstyrjöldinni yfirgáfu það. Helstu leiðtogar þjóðarinnar voru að því tilefni viðstaddir hátíðlega athöfn í Vín ásamt fulltrúum landanna fjögurra sem hernámu það í kjölfar loka síðari heimsstyrjaldarinnar. Austurríki var innlimað í Þýskaland Hitlers árið 1938 en þegar stríðinu lauk var það hernumið af Bandaríkjamönnum, Bretum, Frökkum og Rússum í 10 ár en landið fékk aftur sjálfstæði með samningi sem undirritaður var 15. maí 1955. Rússar hafa vegna tímamótanna lánað Austurríkismönnum upprunalega samninginn og verður hann til sýnis í Vín. Heinz Fischer, forseti Austurríkis, sagði við athöfnina í dag að menn þyrftu alltaf að takast á við fortíðina og að það væri erfitt og sársaukafullt fyrir þjóðina að gera upp þann tíma þegar nasistar stjórnuðu landinu. Austurríkismenn hefðu komist að því að þeir hefðu ekki aðeins verið fórnarlömb í stríðinu heldur líka gerendur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×