Erlent

Sagði frá síðustu dögum Hitlers

Í þessari viku eru liðin sextíu ár síðan þýski og sovéski herinn háðu sína síðustu blóðugu baráttu um Berlín. Enn eru þeir til sem muna vel eftir þessum tíma, þar á meðal lífvörður Adolfs Hitlers sem eyddi síðustu dögunum með honum tíu metrum undir yfirborði jarðar. Rochus Misch er 87 ára gamall. Hann starfaði sem lífvörður Hitlers í fimm ár og vék varla frá hlið hans allan þann tíma. Hann fylgdi því Hitler og nokkrum samstarfsmönnum hans niður í neðanjarðarbyrgi í Berlínarborg í apríl árið 1945 og á meðan átökin geisuðu ofanjarðar ríkti undarleg kyrrð í byrginu þar til Hitler og Eva Braun báðu um að verða ekki trufluð um stund. Misch fór og athugaði málið tveimur tímum síðar. Hann segist hafa gengið inn í stofuna þar sem Hitler og Eva Braun hafi verið og þar hafi Hitler legið á borðinu. Hann man þó ekki hvort Hitler lá nærri sófanum þar sem Braun lá. Þau hafi þó verið tiltölulega nálægt hvort öðru en Braun hafi verið í dökkbláum kjól með hvítum pífum. Misch segist hafa gengið í SS-sveitirnar árið 1937 til að berjast gegn bolsévisma. Hann hefur aldrei iðrast þess að hafa starfað fyrir Hitler og segist ekki hafa vitað að sex milljónir gyðinga voru myrtar með kerfisbundnum hætti á meðan á stríðinu stóð. Sovétmenn handtóku hann eftir stríð og hann sat í níu ár í fangelsi, fyrst í grennd við Moskvu og síðan í Kasakstan. Hann sneri aftur til Berlínar 1954 en henni hafði þá verið skipt í tvennt. Borgar- og landshlutarnir voru svo loks sameinaðir á ný stuttu eftir að Berlínarmúrinn féll síðla árs 1989.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×