Erlent

Hart sótt að Blair

Enn er sótt að Tony Blair forsætisráðherra vegna Íraksmálsins. Á mánudag féll breskur hermaður við skyldustörf þar og hafa fjölmiðlar hafa gert mikið úr þessum atburði á lokaspretti kosningabaráttunnar. Meðal annars var haft eftir ekkju hermannsins að dauði hans væri Blair að kenna. Þá mættu fulltrúar samtaka aðstandenda fallinna hermanna að Downingstræti 10 og afhentu kröfu um að fram færi ný óháð rannsókn á því hvort ákvörðunin um þátttöku Bretlands í Íraksstríðinu hefði verið lögleg. Viðhorfskannanir hafa þó ítrekað sýnt að Íraksmálið sé ekki mjög ofarlega á lista flestra kjósenda yfir þau mál sem þeim þykir skipta mestu í þessum kosningum. Efnahags- og velferðarmálin standa flestum nær, og á þessum sviðum stendur stjórnin allsterkt að vígi að mati meirihluta kjósenda. Óánægjan sem margir stuðningsmenn Verkamannaflokksins bera í brjósti í garð Blairs vegna Íraksstríðsins virðist þó ætla að verða til þess að allnokkrir þeirra láti hana í ljósi með því ýmist að sitja heima á kjördag eða kjósa Frjálslynda demókrata, eina stóru flokkanna þriggja sem frá upphafi var andsnúinn innrásinni í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×