Erlent

Blaðamennska æ hættulegri

Fimmtíu og þrír fjölmiðlamenn týndu lífi við störf í fyrra, þar af rúmur þriðjungur í Írak. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu samtakanna Fréttamenn án landamæra en þau telja blaðamennskustarfið verða æ hættulegra. Í dag er dagur frjálsrar fjölmiðlunar í heiminum. Af því tilefni kynntu Fréttamenn án landamæra skýrslu þar sem helstu staðreyndir um starfsumhverfi blaðamanna í heiminum eru teknar saman. Það kemur sjálfsagt engum á óvart að Írak er sagt hættulegasta landið fyrir blaðamenn að starfa. Nítján blaðamenn voru myrtir þar í fyrra og fimmtán var rænt. Samtals hafa 56 blaðamenn og aðstoðarmenn þeirra verið myrtir á undanförnum tveimur árum í Írak. Það er töluvert meira en í stríðinu á Balkanskaga þar sem 49 blaðamenn létust í fjögurra ára átökum. Til samanburðar dóu 63 blaðamenn við störf í Víetnam á 20 ára tímabili. Fréttamenn án landamæra birtu einnig lista yfir óvini frjálsrar fjölmiðlunar en á þeim lista eru leiðtogar margra ríkja sem takmarka mál- og ritfrelsi og eins stjórnmálamenn sem hafa sannanlega staðið fyrir árásum á blaðamenn vegna starfa þeirra. Enn býr mikill minnihluti mannkyns í löndum þar sem fjölmiðlar eru frjálsir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×