Innlent

Krafa um áhættumat á Landspítala

Vinnueftirlitið hefur sett fram kröfu um að fram fari áhættumat á Landspítala háskólasjúkrahúsi, að sögn Hafdísar Sverrisdóttur eftirlitsmanns. Áhættumatið svokallaða er mismunandi eftir því hvaða stofnanir og fyrirtæki er verið að athuga. Þannig er sértækt mat fyrir bifreiðaverkstæði, annað fyrir skóla og leikskóla og þriðja gerðin fyrir umönnunargeirann, en undir hann falla sjúkra- og hjúkrunarstofnanir. Síðastnefnda matið tekur meðal annars til vinnuverndar, hollustuhátta, líkamsbeitingar, félagslegs og andlegs aðbúnaðar, öryggis og svo eitthvað sé nefnt. Eins og um hefur verið fjallað í Fréttablaðinu hefur í vaxandi mæli borið á kvörtunum starfsfólks á LSH vegna aukins vinnuálags. Það er þó mjög mismunandi eftir deildum spítalans. Oddur Gunnarsson lögmaður á skrifstofu starfsmannamála hefur sagt að því miður komi upp aðstæður annað slagið vegna mönnunar, þar sem fólki líði illa vegna álags. Hann benti á að starfandi væri á spítalanum stuðnings- og ráðgjafateymi, sem tæki á málum sem upp kynnu að koma hjá einstökum starfsmönnum og rekstrareiningum. Síðan væri starfandi deild heilsu, öryggis og vinnuumhverfis á skrifstofu starfsmannamála LSH sem sinnti málum er varðaði líðan starfsmanna. Hafdís kvaðst hafa verið í eftirliti á Landspítalanum á síðasta ári. Í framhaldi af því hefði hún sett fram kröfu að hálfu Vinnueftirlitsins um að stofnunin léti fara fram mat. Sjálfsagt væri að hin ýmsu fyrirtæki og stofnanir færu í áhættumat, því það miðaði að því að gera faglegan og félagslegan aðbúnað enn betri en áður. Hún sagði enn fremur að áhættumat væri nú bundið í lög, en reglur um framkvæmd þess væru ekki fullbúnar. Þess vegna hefði spítalanum verið gefinn lengri frestur til að framkvæma það heldur en hinn hefðbundni sem væri þrír mánuðir, að viðbættum tímanum sem færi í könnunina.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×