Erlent

Eftirlýstir öfgamenn skotnir

Liðsmenn sádi-arabískra öryggissveita skutu í gær til bana eftirlýsta hryðjuverkamenn í skotbardaga í höfuðborginni Riyadh. Þetta var fjórða daginn í röð sem til skotbardaga kom milli vopnaðra öfgamanna og öryggissveita á mismunandi stöðum í konungdæminu. Innanríkisráðuneyti Sádi-Arabíu greindi frá þessu í gær. Abdul-Rahman Mohammed Mahammed Yazji var meðal þeirra sem biðu bana í skotbardaga við lögreglu í iðnaðarhverfi í Riyadh-borg, að því er ráðuneytið sagði í fréttatilkynningu. Yazji var 25. á lista yfir þá 26 meintu hryðjuverkamenn sem stjórnvöld lögðu mesta áherslu á að handsama. Dauði hans þýðir að 24 af þessum 26 liggja nú annaðhvort í valnum eða eru í varðhaldi. Fyrir skotbardagann í Riyadh höfðu öryggissveitir átt í þriggja daga viðureign við vopnaða öfgamenn sem höfðu hreiðrað um sig í eyðimerkurbænum Rass, 350 km norðvestur af Riyadh. Fjórtán menn voru drepnir og sex handteknir. Sex öryggissveitarmenn særðust, að sögn yfirvalda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×