Lífið

Skrifar þriðju súpuna

Lítið hefur farið fyrir Tvíhöfða frá því að útvarpsþáttur þeirra var lagður niður ásamt rokkstöðinni Skonrokki. Þeir félagar hafa þó fóstrað Tvíhöfðafréttir í fréttatíma Stöðvar 2, auk þess sem Jón Gnarr er að vinna að leikriti og skrifar fasta pistla í Fréttablaðið. Sigurjón hefur einnig séð um kvikmyndagagnrýni hjá DV og unnið fyrir 365 - ljósvakamiðla, sem reka meðal annars Stöð 2, Sýn og Bylgjuna. Hann vill þó ekki upplýsa að svo stöddu í hverju vinnan felst. "Okkar mál eru dálítið á huldu þessa stundina en ég er að vinna að ákveðinni þróunarvinnu fyrir 365 - ljósvakamiðla. Við erum ekki búnir að loka hurðinni á útvarpið en ef þátturinn færi aftur í loftið yrði hann sennilega ekki í þeirri mynd sem hann hefur verið," segir Sigurjón. "Annars er heilmikil kvikmyndahátíð að byrja svo það verður nóg að gera hjá mér í kvikmyndagagnrýninni." Sigurjón var um tíma virkur í tónlistarlífi landans, fyrst með rokksveitinni Ham og síðar í einmenningssveitinni Olympiu. Hann tók sér langt frí frá tónlistinni en segist vera farinn að huga að henni á ný. "Ég tók mér eiginlega tíu ára frí frá tónlistinni en með endurkomu Ham fór ég að hugsa aftur um hana og er farinn að finna mig í henni á ný," segir Sigurjón en þvertekur fyrir að hann muni endurvekja Olympiu. Spurning er þá hvort Ham verði vakin upp frá dauðum. "Ég játa því hvorki né neita," segir Sigurjón.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.