Innlent

Af hverju þessi áhugi á Fischer?

Af hverju eru Íslendingar svona hrifnir af Bobby Fischer? Erlendir fjölmiðlar hafa margir hverjir beint sjónum sínum að þessari óskiljanlegu ráðgátu.  Málefni og ferðalag Bobbys Fischers til Íslands hafa verið umfjöllunarefni fjölmiðla um allan heim og það virðist sama hvar borið er niður, það þykir nánast óskiljanlegt að Íslendingar hafi tekið ástfóstri við þennan undarlega, umdeilda og yfirlýsingaglaða aldna skákmeistara sem bæði er þekktur fyrir gyðingahatur og ákaft hatur á föðurlandi sínu, Bandaríkjunum. Niðurstaða fjölmiðla er gjarnan á einn veg: CNN-fréttastofan og bandaríska dagblaðið Washington Post segja Íslendinga hreinlega vera skákóða þjóð og Los Angeles Times útskýrir að skák sé svo mikilvæg hérlendis þar sem hún hafi verið Íslendingum til huggunar og skemmtunar á löngum, köldum vetrarnóttum. Í viðtali við bresku fréttastofuna BBC útskýrir Gunnar Snorri Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, að Íslendingar finni fyrir samstöðu með Fishcer ekki vegna skoðana hans heldur vegna þess að þessi skáksnillingur sé í vanda staddur. Og Páll Stefánsson, ljósmyndari hjá Iceland Review, útskýrir að Fischer sé Beckham Íslendinga og Íslendingar séu þrjósk þjóð sem hafi engar áhyggjur af því hvað Bandaríkjastjórn finnist um okkar framgang í þessu máli. LA Times greinir þessa ráðgátu í tvennt: Í fyrsta lagi séu Íslendingar þakklátir Fischer fyrir að hafa komið Íslandi í umræðuna og á heimskortið þegar hann tefldi hér við Spasský. Og í öðru lagi þá séu Íslendingar óvenjulega umburðarlyndir þegar kemur að sérvitringshættinum í Fischer: þeir yppa öxlum og segja: „Þetta er bara Bobby.“ Blaðamaður LA Times veltir því fyrir sér í lok greinarinnar hvort Íslendingar, þrátt fyrir að vera einstaklega rausnarleg og gestrisin þjóð, eigi eftir að sjá eftir þessari gestrisni sinni.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×