Innlent

Utanríkisráðherra taki af skarið

Utanríkisráðherra þarf að taka af skarið í máli Fischers og ræða við japönsk og bandarísk stjórnvöld og finna lausn, segir fulltrúi Samfylkingarinnar í allsherjarnefnd. Japönsk stjórnvöld hafa kveðið upp úr með að Fischer verði ekki fluttur til Íslands því hann hafi bandarískt ríkisfang. Það kom fram hjá yfirmanni japanska innflytjendaeftirlitsins, þegar mál Fischers voru rædd í þingnefnd, að samkvæmt japönskum lögum skuli Fischer fluttur til þess lands þar sem hann er ríkisborgari. Engar undantekningar eigi við, en Fischer er skráður bandarískur ríkisborgari. Stuðningsmenn Fischers túlka niðurstöðuna þannig að ef hann fái íslenskan ríkisborgararétt verði hann sendur til Íslands. Guðmundur G. Þórarinsson, einn þeirra, segir að fái Fischer hann ekki sýnist honum nokkuð augljóst að hann verði sendur til Bandaríkjanna og muni ef til vill ljúka lífi sínu þar í fangelsi. Þann 5. apríl munu Bandaríkjamenn ákveða hvort þeir ákæra Fischer fyrir skattsvik. Stuðningsmenn hans vonast til að allsherjarnefnd Alþingis mæli með að honum verði veittur ríkisborgararéttur fyrir þann tíma, ella sé spilið tapað. Guðmundur segist biðja til guðs að nefndin taki málið fyrir sem fyrst og afgreiði það á jákvæðan hátt. Næsti fundur allsherjarnefndar er á fimmtudag. Bjarni Benediktsson, formaður nefndnarinnar, vildi ekki veita viðtal vegna málsins í dag og sagði ekki liggja fyrir hvort málið yrði tekið upp aftur innan hennar. Guðrúnu Ögmundsdóttur, fulltrúa Samfylkingarinnar í nefndinni, finnst líklegt að nefndin afgreiði málið með öðrum umsóknum um ríkisborgararétt í vor. Það sé spurning hvort það verði þá of seint ef Fischer verði framseldur til Bandaríkjanna. Þetta byggist því hugsanlega á því að utanríkisráðherra skerist í leikinn og allsherjarnefnd myndi hlýða kalli frá honum glöð og ánægð. Guðrún bendir á að áhöld séu um hvort íslenskur ríkisborgararéttur breyti nokkru fyrir Fischer. Hún segir það síðustu leiðina og ekki annað en það að ráðamenn skerist í leikinn með einhverjum viðræðum við Japana og hugsanlega Bandaríkjamenn. Ekki náðist í utanríkisráðherra vegna málsins í dag.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×