Sport

Platini vill áherslubreytingar

Franska knattspyrnugoðsögnin Michel Platini tilkynnti í dag framboð sitt til forseta knattspyrnusambands Evrópu sem fram fer á næsta ári en hinn sænski núverandi forseti sambandsins, Lennart Johansson ætlar ekki að gegna embættinu áfram eftir að kjörtímabili hans lýkur. Nánast öruggt verður að teljast að Platini hreppi starfið en hann er einn virtasti maðurinn í knattspyrnuheiminum nú til dags. Hann var þrisvar sinnum valinn knattpsyrnumaður Evrópu, varð Evrópumeistari með Frökkum 1984 auk þess að leiða liðið í undanúrslit á HM 1982 og 1986 og skoraði 41 mark í 71 leik fyrir landsliðið. Þá vann hann þrjá Ítalíumeistaratitla með Juventus. Platini segir mikinn titring vera innan knattspyrnunnar nú til dags og ætlar að "gera eitthvað í málinu" eins og hann sagði í hádeginu í dag. "Ég vil að knattspyrna sé eitthvað allt annað en hún er í dag. Ég vil koma í veg fyrir að hún snúist eingöngu um peninga." sagði Platini sem segist ekki vera á eftir vel launuðu starfi. "Verði ég næsti forseti UEFA mun ég þéna minni tekjur en ég geri í dag." bætti sá franski við en hann hefur ávallt verið ófeiminn við að tjá sig um málin þegar knattspyrna er annars vegar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×