Sport

Batistuta leggur skóna á hilluna

Argentínski framherjinn Gabriel Omar Batistuta hefur tilkynnt að hann sé hættur knattspyrnuiðkun.  Hinn 36 ára gamli leikmaður hafði verið á mála hjá Katarska liðinu Al Arabi, en samkomulag hefur náðst um að slíta samningi hans við félagið vegna meiðsla kappans. "Hann er í ágætis formi, en hefur misst áhugann fyrir að leika knattspyrnu og hefur því ákveðið að leggja skóna á hilluna", sagði talsmaður knattspyrnumannsins. Batistuta hóf sinn glæsta feril í heimalandi sínu þar sem hann lék með Newell´s Old Boys, River Plate og Bocca Juniors, en hélt svo til Ítalíu, þar sem hann lék í sjö ár með liði Fiorentina og var nánast tekinn í guðatölu hjá félaginu, þar sem hann stimplaði sig inn sem einn besti framherji í heiminum og skoraði ógrynni marka fyrir liðið. Batistuta lék einnig með Roma, þar sem hann náði að verða meistari með liðinu og var svo hjá Inter Milan um hríð áður en hann flutti sig um set til miðausturlanda. Framherjinn segir að ákvörðun sín um að hætta að leika sé endanleg, en segist hvergi nærri hættur afskiptum sínum af leiknum og segist vel geta hugsað sér að starfa áfram í knattspyrnunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×