Erlent

Ganga nærri mannréttindum

Breska ríkisstjórnin sætir mikilli gagnrýni vegna fyrirhugaðrar löggjafar sem veitir lögreglu aukin völd til að handtaka og halda grunuðum hryðjuverkamönnum. Stjórnarandstæðingar segja löggjöfina grafa undan mannréttindum og breska réttarkerfinu auk þess sem þingmönnum gefist ekki tími til að ræða frumvarpið, sem feli í sér grundvallarbreytingar á bresku dómskerfi. Verði frumvarp stjórnarinnar að lögum getur lögregla haldið meintum hryðjuverkamönnum í stofufangelsi eða sett staðsetningartæki á þá án dómsúrskurðar. Stjórnin vill líka rétt til að lýsa yfir útgöngubanni eða ferðabanni og setja takmarkanir við notkun síma og netsins ef grunur leikur á að hryðjuverk kunni að verða framin. "Bretland stendur frammi fyrir alvarlegri ógn við öryggi almennings," sagði Tony Blair forsætisráðherra í breska þinginu. Hann sagði það mat stjórnvalda, lögreglu og öryggisstofnana að grípa þyrfti til aðgerða og veita lögreglu víðtækari heimildir í baráttunni gegn hryðjuverkum. Hann sagði líka að ekki yrði gengið nærri mannréttindum. Stjórnarandstæðingar eru á öðru máli og segja of langt gengið. Þeir gagnrýna ekki síst að aðeins gefist tveir dagar til að ræða mál sem þingmönnum gefist venjulega nokkrar vikur eða mánuðir til að skoða. Michael Howard, leiðtogi íhaldsmanna, sakaði Blair um hroka. "Hvers vegna heldur forsætisráðherra svona fast í að takmarka þann tíma sem gefst til að ræða þessar mikilvægu spurningar? Hvers vegna neitar hann að skilja að það eru aðrir valmöguleikar sem er vert að skoða? Hví er hann svo hrokafullur þegar kemur að þessum spurningum sem skipta sköpum um öryggi okkar og réttindi?" Með frumvarpinu er brugðist við úrskurði æðsta dómstóls Bretlands um að óheimilt sé að halda meintum hryðjuverkamönnum ótímabundið án dóms og laga. Því þarf að sleppa tíu mönnum en breska stjórnin vonast til að komast hjá því með nýrri löggjöf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×