Sport

Máli Eiðs Smára lokið hjá Chelsea

Búið er að afgreiða mál Eiðs Smára Guðjohnsens hjá Chelsea. Faðir hans segir Eið Smára ekki þurfa að greiða sekt til félagsins og lögreglan hafi stöðvað hann snemma nætur en ekki undir morgun eins og breskir fjölmiðlar héldu fram. Eiður Smári Guðjohnsen, leikmaður Chelsea, fyrirliði íslenska landsliðsins og íþróttamaður ársins hefur verið í fréttum bæði hérlendis og í Bretlandi eftir að lögreglan stöðvaði hann. Samkvæmt upplýsingum úr breskum fjölmiðlum var hann stöðvaður fyrir of hraðan akstur og við athugun hafði hann neytt áfengis. Í breskum blöðum í dag segir að málinu sé lokið að hálfu félagsins og ekki verði frekari eftirmál. Reyndar er sagt að sumir leikmenn séu jafnari en aðrir. Eiður hafi brotið gegn reglum félagsins en Jose Mouriniho, framkvæmdastjóri liðsins, hafi ákveðið að refsa honum ekki. Reyndar segir líka að Eiður Smári hafi haft ýmislegt sér til varnar í málinu. Annað blað fullyrðir hið sama en að Eiður hafi fengið 60 þúsund punda sekt. Í blöðunum segir að Mouriniho hafi greinilega mikið álit á Eiði Smára og líti á hann sem greindan og fjölhæfan leikmann og hann hafi verið einn fyrsti leikmaðurinn sem framkvæmdastjórinn hafi sagt við að hann vildi halda í liðinu þegar hann tók við. Þá sé Eiður Smári í leikmannaráði ásamt Claude Makelele og Carlo Cudicini. Arnór Guðjohnsen, faðir Eiðs Smára, segir það rangt að sonur sinn hafi verið sektaður um 60 þúsund pund. Málinu sé lokið að hálfu Chelsea. Meðal reglna sem Chelsea setur leikmönnum sínum er að vera komnir heim fyrir miðnætti og vera ekki lengur úti en til klukkan 2 þegar frí er daginn eftir. Arnór segir að Eiður Smári hafi ekki brotið gegn reglum félagsins, það sé rangt sem fram komi í breskum blöðum að hann hafi verið stöðvaður klukkan 5.20. Hann hafi verið stöðvaður mun fyrr um nóttina. Arnór minnir á að eftir skýrslutöku á lögreglustöð hafi lögreglan látið hann fá bíllyklana aftur og leyft honum að aka heim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×