Erlent

Úrslit eftir átta til tíu daga

Talning atkvæða eftir þingkosningar í Írak er hafin en ekki er búist við að úrslit kosninganna liggi fyrir fyrr en eftir átta til tíu daga. Flest bendir til þess að sameinuð hreyfing sjíta sem framfylgir stefnu trúarleiðtogans Alis al-Sistanis beri sigur úr býtum. New York Times greinir frá því að háttsettur maður innan hreyfingarinnar hafi sagt að bandarískir og breskir embættismenn í Írak hafi sagt sér í gærkvöldi að líklega hefði flokkurinn hlotið um helming atkvæða. Hreyfing Iyads Allawis, forsætisráðherra bráðabirgðarstjórnarinnar, virðist líka hafa gengið vel í kosningunum. Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagði í gær að Írakar hefðu sýnt mikið hugrekki með því að mæta á kjörstaði í gær þrátt fyrir hótanir hryðjuverkamanna. Þá sagði hann mjög mikilvægt að séð yrði til þess að allir þeir sem ekki hefðu séð sér fært að kjósa í gær fengju tækifæri til þess að kjósa um nýja stjórnarskrá í landinu þegar þar að kæmi. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og George Bush Bandaríkjaforseti tóku í sama streng í gærkvöldi. Blair sagði að afl frelsis hefði yfirgnæft allt annað í Írak í gær. Þó að skiptar skoðanir væru um réttlæti innrásarinnar í Írak hlytu allir að fagna framgangi lýðræðis í landinu. Bush, sem flutti sjónvarpsávarp í Washington, sagði að Írakar hefðu hafnað hugmyndafræði hryðjuverkamanna með góðri þátttöku í kosningunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×