Erlent

Chirac harmar misrétti

Sarkozy og Chirac. Frakklandsforseti gefur innanríkisráðherranum Nicolas Sarkozy eyra á fundi í París í gær.
Sarkozy og Chirac. Frakklandsforseti gefur innanríkisráðherranum Nicolas Sarkozy eyra á fundi í París í gær.

Jacques Chirac, forseti Frakklands, sagði í gær að það yrði áfram forgangsmál ríkisstjórnarinnar að binda enda á óeirðirnar sem geisað hafa í landinu í tvær vikur. Hann viðurkenndi jafnframt að félagslegt misrétti kynti undir óánægju meðal ungs fólks sem staðið hefur að uppþotunum í innflytjendahverfum franskra borga.

"Hver sem uppruni okkar er þá erum við öll börn lýðveldisins og við væntum þess öll að njóta sömu réttinda," sagði forsetinn; "Allir hafa rétt á virðingu og jöfnum tækifærum." Þetta var aðeins í annað sinn frá því óaldarbylgjan hófst sem Chirac tjáði sig opinberlega um hana. Flest benti í gær til að óöldin væri í hraðri rénun eftir að neyðarlög voru sett á þriðjudag og útgöngubann á grundvelli þeirra í nokkrum sveitarfélögum þar sem óeirðaseggir hafa haft sig mikið í frammi. Kveikt var í tæplega 500 bílum í fyrrinótt, fjórtándu óeirða­nóttina í röð, en talsmenn lögreglu sögðu það vísbendingu um að ástandið væri að skána.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×