Innlent

Geir gengur auðmjúkur til verks

„Ég er mjög ánægður með þessi úrslit og glaður yfir því að hafa fengið svona mikið traust hjá landsfundarfulltrúum og mun að sjálfsögðu gera mitt besta til þess að standa undir því,“ segir Geir Hilmar Haarde, nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins. Geir segir að samstaða hafi ríkt um þær ályktanir sem voru til meðferðar á fundinum. „Það er nú gjarnan þannig að þegar eru mannabreytingar í forystunni þá er kannski aðeins minni athygli en ella á ályktanir fundarins. Auðvitað er alltaf einhver ágreiningur og átök. Það er bara heilbrigt í stórum flokki og getur oft verið mjög skemmtilegt,“ segir Geir. Í ræðu sinni á fundinum í gær sagði Geir að embætti formanns Sjálfstæðisflokksins væri líklega eitt ábyrgðarmesta verkefni í þjóðfélaginu. „Ég hlýt að ganga til þessa verks af mikilli auðmýkt,“ sagði hann. Geir var einn í framboði til formennsku og hlaut hann afgerandi kosningu, ríflega 94 prósent atkvæða. Aðrir sjálfstæðismenn hlutu samtals 65 atkvæði en fjörutíu seðlar voru auðir. Davíð Oddsson, fráfarandi formaður, kvaddi sér hljóðs við sama tækifæri og sagði að þegar Sjálfstæðisflokknum hefði vegnað best hefði einnig þjóðinni farnast best. Hann óskaði Geir velfarnaðar og sagði: „Nú get ég horfið glaður og keikur af hinu pólitíska sviði og það geri ég núna, þakka ykkur fyrir.“ Fyrr á fundinum vék Geir að brotthvarfi Davíðs Oddssonar úr stjórnmálum. „Það eru vatnaskil, bæði í Sjálfstæðisflokknum og landsmálum, þegar Davíð Oddsson lætur af formennsku og hættir stjórnmálaafskiptum.“ Hann sagði einnig á fundinum að sér þætti dapurlegt að fylgjast með því hvernig tilteknir fjölmiðlar og stjórnmálamenn hefðu snúið út úr merkri setningarræðu Davíðs Oddsonar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×