Innlent

Tvöföldun líklega samþykkt

Búist er við að bæjarstjórn Garðabæjar samþykki í vikunni tvöföldun Reykjanesbrautar frá Fífuhvammsvegi að Kaplakrika. Ný tillaga sem gerir ráð fyrir betri hljóðvörnum hefur líka hlotið samþykki íbúa sem hafa hingað til verið mótfallnir tvöföldun brautarinnar. Fólk sem keyrir til og frá Hafnarfirði eftir Reykjanesbrautinni hefur eflaust ekki farið varhluta af því að á kaflanum milli Fífuhvammsvegar og inn í Hafnarfjörð myndast oft teppa á álagstímum. Á þessum kafla er nú aðeins ein akrein í hvora átt sem annar alls ekki umferðarþunganum. Lengi hefur staðið til að tvöfalda kaflann en íbúar í nágrenninu hafa sett sig upp á móti því, ekki síst vegna mikils hávaða. Nú virðist lausnin hins vegar loks í sjónmáli. Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, segir lausnina felst aðallega í því að Vegagerðin hafi komið með betri tillögur um hljóðvarnir og ákveðna útfærslu á svokölluðu miðdeili þar sem verður mön, auk þess sem úrskurður umhverfisráðherra sé að sínu viti „uppfylltur betur en áður“. Skipulagsnefnd Garðabæjar hefur mælst til þess að framkvæmdaleyfi verði gefið út. Á fundi næsta fimmtudag verður það væntanlega formlega samþykkt. Íbúasamtök bæjarins hafa líka samþykkt tillöguna fyrir sitt leyti. Gunnar segir að helst hefðu allir Garðbæingar viljað að brautin yrði færð í stokk en fyrirsjáanlegur kostnaður við slíka framkvæmd hafi hreinlega útilokað hana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×