Erlent

Voru á lífi þegar vélin fórst

Svo virðist sem farþegar og áhöfn kýpversku flugvélarinnar sem fórst á sunnudaginn hafi verið á lífi þegar vélin brotlenti. Maður hefur verið ákærður fyrir að skrökva því að hafa fengið textaskilaboð frá farþega vélarinnar rétt áður en hún skall til jarðar. Grískir réttarlæknar hafa krufið á þriðja tug fórnarlamba flugslyssins en kennsl hafa þegar verið borin á lík þeirra af ættingjum. Niðurstaða krufninganna bendir afdráttarlaust til þess að fólkið hafi verið á lífi þegar vélin brotlenti fjörutíu kílómetra norður af Aþenu, þar á meðal flugmaður hennar. Læknarnir segjast þó ekki geta sagt til um hvort það hafi verið með meðvitund við áreksturinn, til þess þurfi að fara fram eiturefnarannsókn og hún gæti tekið allt að tvær vikur. Maður frá Þessalóníku í norðurhluta Grikklands hefur verið ákærður fyrir að dreifa röngum upplýsingum. Hann hringdi í sjónvarpsstöð í heimalandi sínu stuttu eftir slysið og sagðist hafa fengið textaskilaboð frá frænda sínum sem átti að hafa verið um borð. Enda þótt maðurinn sitji fast við sinn keip bendir flest til þess að sagan um skilaboðin sé uppspuni frá rótum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×