Erlent

Reynir á mörk tjáningarfrelsis

Åke Green. Fjölmiðlafólk sækir að prestinum fyrir utan Hæstarétt í Stokkhólmi í gær. Borðanum kom stuðningsfólk hans upp.
Åke Green. Fjölmiðlafólk sækir að prestinum fyrir utan Hæstarétt í Stokkhólmi í gær. Borðanum kom stuðningsfólk hans upp.

Prestur í sænskum hvítasunnusöfnuði varði fyrir Hæstarétti Svíþjóðar í gær fullyrðingar sínar um að samkynhneigð væri "sem krabbameins­æxli á þjóðarlíkamanum". Presturinn, Åke Green, flutti stólræðu fyrir tveimur árum þar sem hann lét þessi ummæli falla, en fyrir þau var hann kærður fyrir brot á lögum sem banna hatursáróður.

Árið 2003 var þeim breytt þannig að þau næðu líka yfir slíkan áróður gegn samkynhneigðum. Málið þykir reyna á mörk tjáningarfrelsis í Svíþjóð. Green var dæmdur sekur í héraðsdómi en áfrýjunardómstóll hnekkti þeim dómi. Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu þá til Hæstaréttar. Bein útsending var frá réttarhaldinu í gær, sem er mjög óvenjulegt í Svíþjóð.

Green sagði í vitnisburði sínum að í stólræðunni hefði hann viljað vara homma við því að lífsstíll þeirra myndi leiða til "eilífs skilnaðar" við Guð.

"Sofi tveir karlmenn hvor hjá öðrum, eða geri tvær konur það, er það ónáttúra, rétt eins og barnagirnd," tjáði hann réttinum.

Málið hefur vakið alþjóðlega athygli. Talsmenn trúarsamtaka segja sakfellingu jafngilda ógn við tjáningar- og trúfrelsi. Aðrir segja að sýkna myndi opna allar gáttir fyrir svæsnari árásum gegn gyðingum, múslimum og hommum af hálfu hægriöfgamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×