Erlent

Útgöngubanni óvíða beitt í Frakklandi

Frá Evreux. Slökkviliðsmenn standa við búð í bænum Evreux í Mið-Frakklandi sem óeirðaseggir rústuðu og kveiktu í. Útgöngubann tók gildi í bæjarhlutanum La Madeleine í fyrrakvöld.
Frá Evreux. Slökkviliðsmenn standa við búð í bænum Evreux í Mið-Frakklandi sem óeirðaseggir rústuðu og kveiktu í. Útgöngubann tók gildi í bæjarhlutanum La Madeleine í fyrrakvöld.

Óöldina í innflytjendahverfum franskra borga tók að dvína í gær. En þó voru yfir 600 bílar brenndir í fyrrinótt og skemmdarvargar létu útgöngubann ekki aftra sér frá því að rústa verslanir, dagblaðadreifingarmiðstöð og jarðlestarstöð.

Neyðarástandið sem ríkisstjórnin lýsti yfir til að unnt væri að setja á útgöngubann í þeim sveitarfélögum þar sem óeirða­seggir hafa haft sig mest í frammi, tók gildi á miðnætti í fyrrakvöld. Neyðarástandið verður í gildi í tólf daga en þingið getur ákveðið að framlengja það.

Um miðjan dag í gær höfðu þó aðeins fáein sveitarfélög og héraðs­stjórnir ákveðið að beita þessari heimild, þar á meðal Amiens í Norður-Frakklandi, Orleans og Savigny-sur-Orge í miðhluta landsins, sem og Essonne-hérað suður af París. Bannið gilti þó aðeins um ungmenni 16 ára og yngri, sem ekki mega vera á ferli utandyra eftir myrkur nema í fylgd með fullorðnum. Nærri því þrír af hverjum fjórum svarenda í viðhorfskönnun sem gerð var á vegum dagblaðsins Le Parisien sögðust styðja setningu útgöngubanns.

Að sögn lögreglu voru 617 bílar brenndir í fyrrinótt, sem er nærri helmingi færri en nóttina þar áður. Óeirðaseggir létu að sér kveða í alls 116 bæjum, en nóttina áður var tilkynnt um slíkt í 226 bæjum. 280 manns voru handteknir, en þar með var fjöldi handtekinna kominn í 1.830 alls frá því að óeirðaaldan hófst fyrir tveim vikum í kjölfar slysadauða tveggja unglinga af norður-afrískum uppruna.

"Handtökurnar eru greinilega að sýna árangur," sagði Franck Louvrier, talsmaður innanríkisráðuneytisins. Betur mætti þó ef duga skyldi. Þeir sem brjóta útgöngubannið þar sem það er í gildi eiga allt að tveggja mánaða fangelsi yfir höfði sér og 3.750 evra sekt, andvirði 270.000 króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×