Erlent

Á brattann að sækja fyrir Benedikt

Heimsókn Benedikts páfa sextánda til Þýskalands lauk í dag með útimessu fyrir framan um eina milljón ungmenna sem komin voru alls staðar að úr heiminum til að berja nýja páfann augum. Honum þótti takast ágætlega upp, en það er mál manna að það sé á brattann að sækja fyrir Benedikt að ávinna sér viðlíka vinsældir meðal æskunnar og forveri hans Jóhannes Páll annar naut. Heimsmót kaþólskra ungmenna hefur staðið síðustu daga í nágrenni Kölnar í Þýskalandi. Það hefur verið haldið á þriggja ára fresti frá því að Jóhannes Páll páfi annar fékk hugmyndina að því fyrir tuttugu árum. Þýska lögreglan telur að um ein milljón þátttakenda hafi verið á grasflötunum í Marienfeld þegar Benedikt páfi sextándi kom þar akandi í hinu sérstaka farartæki sem kallað er popemobile á ensku, páfabíllinn. Flestir höfðu krakkarnir lagt mikið á sig að komast þangað, þau tóku lestir og rútur og gengu síðan nokkra kílómetra, komu sér fyrir í gærkvöldi og sváfu undir berum himni í nótt til að vera tilbúin þegar messa hæfist. Benedikt páfi mælti á fjórum tungumálum - móðurmáli sínu þýsku, frönsku, ítölsku og ensku. Páfi lagði áherslu á að trúin væri ekki neytendavara þar sem hægt væri að velja það sem manni líkaði og sleppa öðru heldur gilti reglan um allt eða ekkert. Hann sagði enn fremur að frelsið snerist ekki einungis um að tryggja líf og sjálfsforræði heldur um það lifa í sannleika og manngæsku þannig að fólk gæti orðið satt og gott. Jóhannes Páll var afar vinsæll og Benedikts páfa sextánda bíður greinilega heilmikið verkefni að ávinna sér traust og aðdáun æskunnar í sama mæli. Sumir sögðu að hann væri íhaldssamur í viðhorfum sínum en aðrir vonuðu að hann fetaði í fótspor Jóhannesar Páls annars og skapaði frið á jörðu. Þá bentu sumir á að Jóhannes Páll hefði verið mikill persónuleiki en æskan þekkti Benedikt ekki enn. En hann gladdi að minnsta kosti ástralska hópinn sérstaklega með þeim orðum að næsta heimsmót yrði haldið í Sydney.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×