Erlent

Slökkviliðsstjóri kveikir í

Yfirmaður slökkviliðs á Spáni hefur verið handtekinn grunaður um að kveikja fimmtán af þeim fjölmörgu skógareldum sem geysað hafa í Galicia-héraðinu á norðvesturhluta landsins að undanförnu. Hinn 33 ára slökkviliðsstjóri Orense-sýslu var gripinn glóðvolgur af lögreglunni en maðurinn hafði verið undir eftirliti í nokkra daga. Talið er að maðurinn hafi verið reiður yfir því að vera ekki skipaður í slökkvilið heimabæjar síns. Tæplega 300 menn hafa verið handteknir vegna gruns um íkveikju á Spáni það sem af er ári. Á síðustu tveimur dögum hafa 184 skógareldar verið tilkynntir í landinu. Þar af er talið að 180 hafi orðið vegna íkveikju. Skógareldar geysa víðar í Evrópu. Yfirvöld í Portúgal hafa óskað eftir aðstoð Evrópusambandsins til að berjast við gríðarlega skógarelda í landinu. Einir verstu þurrkar sem landið hefur orðið fyrir í mörg ár hafa kynt undir bálið sem hefur leitt ellefu slökkviliðsmenn og fjóra almenna borgara til dauða frá ársbyrjun. Skógareldarnir í Portúgal hafa þegar brennt 140 þúsund hektara skóglendis sem er meira en á öllu síðasta ári þegar um 130 þúsund hektarar brunnu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×