Erlent

Átök á Gasaströndinni í dag

Til nokkurra átaka kom milli landnema og ísraelskra hermanna í dag, þegar þeir síðarnefndu hófu að rýma síðustu landnemabyggðir gyðinga á Gasaströndinni og Vesturbakkanum, sem ríkisstjórn Ariels Sharons hefur ákveðið að skuli víkja. Húsin verða rifin áður en Palestínumenn fá yfirráð yfir landinu en þeir mega nýta byggingarefnið sem eftir verður. Þau vita að það þýðir lítið að slást við hermennina en gera það samt af reiði yfir því að þurfa að yfirgefa heimili sín. Í landnemabyggðum á Vesturbakkanum hefur brottflutningurinn mætt heldur harðari andstöðu en á Gasaströndinni. En í Atzmina, einni af síðustu byggðunum á Gasaströndinni sem herinn rýmdi, höfðu íbúarnir kveikt í dekkjum og heyi svo erfiðara yrði fyrir herinn að komast inn um hliðið. Sumir íbúanna höfðu nælt í sig gulum Davíðsstjörnum og vildu með því gefa í skyn að meðferðin á þeim væri eins og undir stjórn nasista í seinni heimsstyrjöldinni. Þetta hefur ekki fallið í góðan jarðveg hjá Ísraelsmönnum sem lifðu helförina af. Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, kallaði ofbeldisfull viðbrögð landnemanna húliganisma eða bulluhátt. Ríkisstjórn hans fundaði í morgun og staðfesti að klára skyldi rýmingu byggðanna 25 - 21 á Gasaströndinni og fjögurra á Vesturbakkanum - sem allra fyrst. Samkvæmt samkomulagi ísraelskra stjórnvalda og heimastjórnar Palestínu verða öll húsin í byggðunum rifin og hrúgurnar skildar eftir. Palestinumönnum er svo frjálst að nýta byggingarefnið eða hreinsa það burt. En þótt hraðar hafi gengið að fá mannfólkið til að yfirgefa svæðin þá hefur herinn átt í nokkrum vandræðum með aðra íbúa. Fulltrúar dýraverndunarsamtakanna Hakol Chai hafa þrætt byggðirnar undanfarna daga og safnað saman gæludýrum sem hafa orðið eftir í látunum. Þeim verður öllum komið fyrir á öruggum stað þar til heimili finnast handa þeim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×