Erlent

Stjórnarandstöðu spáð sigri

Fyrstu útgönguspár í gær benda til þess að stjórnarandstaðan hafi sigrað þingkosningarnar í Albaníu, sem haldnar voru í gær. Von er á opinberri niðurstöðu síðar í dag. Eftir því sem einkarekna stjórnvarpsstöðin Klan skýrði frá í gærkvöld hafði Lýðræðisflokkur Sali Berisha, sem er í stjórnarandstöðu, meirihluta í 11 kjördæmum. Sósíalistaflokkur Fato Nano forsætisráðherra, hafði náð meirihluta atkvæða í fjórum kjördæmum. Berisha hvatti stuðningsmenn sína til þess að sýna stillingu og fagna ekki of snemma. Frekar að bíða þar til úrslit kosninganna væru ljós. Hundruð stuðningsmanna höfðu safnast saman fyrir fram höfuðstöðvar Lýðræðisflokksins til að fagna þessum fréttum sjónvarpsstöðvarinnar. Gramoz Ruci, háttsettur aðili innan Sósíalistaflokksins kallaði útgönguspána fáránlega. Einhverjir kjörstaðir voru enn opnir, tveimur tímum eftir að þeim átti að loka, til að þúsundir kjósenda sem mættu of seint gætu kosið. Um fimmhundruð aðilar frá alþjóðlegum stofnunum fylgdust með því að kosningarnar færu rétt fram. Samkvæmt albönsku lögreglunni var starfsmaður á kjörstað í Tirana skotinn í gærkveldi og lést hann skömmu síðar á sjúkrahúsi. Ekkert frekar er vitað um tildrög málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×