Erlent

Mótmælin merkilegri en tónleikar

Helgin var undirlögð viðburðum sem hafa áttu áhrif á leiðtoga átta helstu iðnríkja heims sem funda á miðvikudaginn. Í Edinborg í Skotlandi gengu yfir tvö hundruð þúsund manns hring í borginni til að hvetja leiðtogana til að grípa til aðgerða gegn hungri og fátækt í Afríku. Kristín Hannesdóttir, varakonsúll í Edinborg var í göngunni. Hún segir að dagurinn hafi verið ógleymanlegur og alveg stórmerkilegur. "Þetta var alveg ótrúlegt og það fór um mann fiðringur. Fólk fór til að styðja málefnið og var almennt ánægt og vonglatt. Þetta var miklu merkilegra en stóru tónleikarnir því til Edinborgar kom ekki bara ungt fólk að sjá stjörnurnar. Þarna var allskonar venjulegt fólk, fjölskyldufólk og gamalt fólk sem kom allstaðar að af öllu Bretlandi." Kristín furðar sig á því hversu mikill viðbúnaður var hjá lögreglunni fyrir gönguna sem fór í alla staði mjög vel fram. "Það voru örugglega fleiri þúsund lögreglumenn en það kom ekkert upp. Það var einn smáhópur af fólki sem var að mótmæla á einum stað, en það var ekkert til að taka með. " Þótt ýmsum hafi þótt nóg um löggæslu í Edinborg er hún smá í sniðum miðað við gæsluna sem er í kring um Gleneagles í Skotlandi þar sem fundurinn er haldinn. Þar er mikill öryggisviðbúnaður eins og vænta má þegar átta af valdamestu mönnum heimsins verða samankomnir á einum stað. Búið er að innsigla svæðið með átta kílómetra langri girðingu og tíu þúsund lögreglumenn eru á vakt, auk þess sem varnarturnar hafa verið byggðir til að hafa útsýni yfir svæðið og lofthelgin yfir Gleneagles er orðin bannsvæði fyrir flugvélar. Skipulagning öryggisgæslunnar hefur verið í fullum gangi í átján mánuði og miðar að því að verjast mögulegum hryðjuverkaárásum auk þess sem lögregla þarf að halda frá hundruðum andstæðinga hnattvæðingar og anarkista. Ljóst er að leiðtogarnir þurfa vinnufrið ef þeim á að takast það sem mótmælendurnir kalla eftir, að leysa vanda þróunarríkjanna. Fjármálaráðherra Bretlands, Gordon Brown, varaði fólk við því í gær að gera of miklar kröfur til fundarins. "Það er ekki vinna sem stendur yfir á fundi átta helstu iðnríkja heims í eina viku, sem á eftir að ákvarða framtíð Afríku eða þróunarlandanna," sagði hann í viðtali við fréttastofuna BBC.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×