Erlent

Sendiherra rænt í Írak

Æðsta sendimanni Egypta í Írak hefur verið rænt. Einungis eru örfáar vikur síðan sendimaðurinn, Ihab al-Sherif, kom til Íraks en áður hafði hann verið sendimaður í Líbanon og Sýrlandi. Al-Sherif var rænt þegar hann stoppaði á götu við Bagdad til að kaupa sér dagblað. Að sögn sjónarvotta réðust að honum byssumenn sem börðu hann niður og sökuðu hann um að vera bandarískan njósnara áður en hann var numinn á brott í bíl. Ránið er mikið bakslag fyrir Bandaríkjamenn sem hafa lagt þrýsting á löndin í arabíska heiminum að senda mikilsmetna sendimenn til að sinna diplómatískum störfum í Írak. Með því er vonast til að náist að treysta ríkisstjórn landsins enn frekar í sessi. Þetta er í annað sinn sem egypskum sendimanni er rænt í Írak. Fyrir tæpu ári var Mohammed Mamdouh Helmi Qutb rænt af íslömskum öfgahóp og var í haldi í heilan mánuð. Honum var sleppt þegar Egyptar lýstu því yfir að þeir ætluðu ekki að senda hermenn til Írak til að berjast við hlið Bandaríkjamanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×