Innlent

Bakterían á þremur stöðum á LHS

Hermannaveikibaktería hefur fundist á þremur stöðum á Landspítala háskólasjúkrahúsi frá því að skipulögð leit hófst að bakteríunni innan veggja spítalans síðastliðinn vetur. Starfsmenn Landspítalans hófu snemma árs leit að hermannaveikibakteríum á sjúkrahúsinu. Kveikjan að leitinni voru veikindi einstaklings sem veiktist af hermannaveiki á sjúkrahúsinu sjálfu. Ólafur Guðlaugsson, yfirlæknir á sýkingavarnadeild, segir að bakterían hafi greinst á þremur stöðum eftir að leitin hófst, bakterían fannst í tveimur vöskum á Landspítalanum við Hringbraut og í einum vask í sjúkrahúsinu í Fossvogi og segir Ólafur að skipt hafi verið um talsvert af lögnum í kjölfarið. Ólafur segir niðurstöðuna talsvert betri nú en síðast þegar slík rannsókn var gerð; það var á níunda áratugnum og þá var bakterían nokkuð útbreidd á sjúkrahúsinu. Ólafur segir hermannaveikibakteríu útbreidda og að vísast megi finna hana í öllum vatnskerfum á landinu án þess að það þurfi að leiða til smits. Leit að bakteríunni er hvort tveggja dýr og tímafrek. Leitin á Landspítalanum hófst í byrjun árs og stendur líklega í tvo til þrjá mánuði enn. Eitt af því sem tefur leitina er að aðeins er hægt að keyra tíu til fimmtán sýni í búnaði spítalans hverju sinni og tekur tvær vikur að greina hvert sýni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×