Erlent

Þingkosningar í Aserbædjan taldar breyta litlu

Íbúar Aserbædjans gengu til þingkosninga í dag. Ekki er talið að þær muni breyta miklu í þessu fyrrverandi Sovétlýðveldi þar sem starfsemi stjórnarandstöðuflokka er ekki vel liðin og olíugróðinn virðist seint ætla að skila sér til almennings.

Aserbædjan fékk sjálfstæði frá Sovétríkjunum árið 1991. Íbúar þar eru um átta milljónir, flestir múslimar. Aserbædjanar hafa lengi deilt við Armena um héraðið Nagorno Karabak og er af þeim sökum um hálf milljón flóttamanna í landinu. Þar á meðal er þetta fólk sem búið hefur í þessu hálfhrunda hóteli í Baku í rúman áratug og lifir af tólf hundruð krónum á mánuði.

Þrátt fyrir olíu- og gaslindir, er efnahagur landsins í hálfgerðri rúst og fátækt mikil. Við það bætist að vísindamenn telja Abseron Yasaqligi nesið þar sem höfuðborgin er, vera eitt mengaðasta svæði jarðar. Loft, jarð og vatnsmengun vegna olíuleka, mikillar notkunar DDT skordýraeiturs og eiturefna sem notuð eru við bómullarframleiðslu, er slík, að annað eins þekkist varla á byggðu bóli.

Enn eimir eftir af Sovéttímanum, en kosningabarátta stjórnarandstöðuflokkanna hefur verið takmörkuð af stjórnvöldum, og ríkissjónvarpið sem er meginupplýsingamiðill borgaranna, hefur sent út stöðugan áróður gegn henni. Það er því ekki búist við öðru en að flokkur forsetans Ilhams Alievs, haldi völdum.

Yaku Islamova, kosningarstjóri 22. umdæmis í Baku, segir að lagt verði áhersla á að kosningarnar verði lýðræðislegar og hlutlausar og hún telur að þær verði það.

Það er þó gott til þess að vita að síðasta skipunin var ekki um að kosningarnar skyldu vera ólýðræðislegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×