Innlent

Ræða Davíðs gagnrýnd

Davíð Oddsson, fráfarandi formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á landsfundi flokksins í gærkvöld að innan fárra ára yrði ljótasti blettur á íslenskri fjölmiðlun kominn í sitt skot í sögunni. Hann sagði að fjölmiðlasamsteypa hefði verið notuð til að þjóna hagsmunum auðhrings, þar sem óvægnum árásum og slúðri úr stolnum gögnum hefði verið beitt gegn einstaklingum sem auðhringnum væri í nöp við. Ólíklegt er að formaðurinn fráfarandi haði þarna verið að boða nýtt fjölmiðlafrumvarp en það væri þá í andstæður við það sem forsætisráðherra sagði í vikunni um að nýtt frumvarp væri ekki tilbúið en það myndi taka mið að þverpólitískri niðurstöðu fjölmiðlanefndarinnar síðari. En Davíð Oddson talaði að minnsta kosti ekki eins og maður sem er á leið úr íslenskri pólitík. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagðist treysta orðum núverandi forsætisráðherra og menntamálaráðherra í þá veru að byggt verði á því nefndarstarfið sem unnið var síðastliðinn vetur. Ingibjörg taldi vera góða sátt um það meðal allra flokka. Ingibjörg sagði að tónn Davíðs kæmi sérkennilega fyrir sjónir, að hann myndi nýta sína síðustu pólitísku ræðu til að sparka í allar áttir. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar -græns framboðs, sagði engann vafa á því að Davíð ætti sér skoðanabræður innan Sjálfstæðisflokksins en með ræðu sinni væri hann kannski að stappa stálinu í fólk í sínum herbúðum. Steingrímur sagði ræðu Davíð ekki benda til þess að mikill sáttarhugur væri í Davíð í tengslum við fjölmiðlafrumvarpið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×