Innlent

Eftirlit hert í Leifsstöð

Yfirdýralæknir, Halldór Runólfsson, hefur sent sýslumanns-embættinu á Keflavíkurflugvelli beiðni um hert eftirlit í Leifsstöð vegna fuglaflensu. Þá hefur embættið sent frá sér yfirlýsingu þar sem fólki er bent á að gæta ýtrustu varúðar á ferðalögum sínum erlendis. Fuglaflensa hefur verið staðfest í Tyrklandi, Rúmeníu, Rússlandi og Kasakstan að undanförnu. Áður hafði hún verið staðfest í Víetnam, Tælandi, Kambódíu, Indónesíu, Laos, Kína, Pakistan, Norður - Kóreu og Hong Kong. „Nú er mjög mikilvægt á næstu misserum og árum að fólk láti sér ekki detta í hug að leika sér að eldinum með því að smygla hráu fuglakjöti og lifandi fuglum inn í landið, sama hvaðan það er," segir Halldór. „Það er gildandi algjört bann við slíkum innflutningi, svo og lifandi dýrum almennt og hráu kjöti. Eftirlitsaðilar í Leifsstöð eru náttúrlega mjög vakandi fyrir þessu. Það er góð samvinna milli okkar um þessi mál." Yfirdýralæknir segir enn fremur að hafinn sé undirbúningur skimunar á alifuglum, innan dyra og utan, svo og farfuglum hér á landi. Verið sé að skipuleggja þá vinnu þessa dagana. „Endur og gæsir eru helstu hýsl-arnir," segir yfirdýralæknir. Spurður um hvort einhver hætta geti stafað af því að meðhöndla eða neyta gæsa- og andakjöts segir hann það ekki vera svo „þetta haustið". „Við vitum hins vegar ekkert hvernig málin þróast, þannig að staðan getur verið orðin breytt strax í vor. Við viljum beina þeim tilmælum til veiðimanna að þeir láti vita, annað hvort til yfirdýralæknis eða síns héraðsdýralæknir, ef þeir verða varir við veika fugla. Við myndum líta á veiðimenn sem okkar bandamenn ef eða þegar þar að kemur. En í haust er það ekki á döfinni." Evrópusambandið hefur sett bann á innflutning til aðildarlanda sinna á lifandi fuglum, eggjum, hráu fuglakjöti og hvers kyns fuglaafurðum frá 14 löndum þar sem fuglaflensa hefur verið staðfest, að sögn Halldórs. Hann bætir við að samsvarandi reglugerð hafi nú verið gefin út af landbúnaðarráðuneytinu hér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×