Innlent

Fuglaflensan til Íslands næsta vor

Fuglaflensutilvik hafa undanfarna daga komið upp í bæði Tyrklandi og Rúmeníu. Flest bendir til að fuglaflensa breiðist út um alla Evrópu næsta vor. Yfirdýralæknisembættið á Íslandi hefur fengið tæpar tvær milljónir króna til að rannsaka alifugla hérlendis og farfugla sem koma hingað næsta vor.Enn er H5N1-stofninn svokallaði ekki stökkbreyttur þannig að hann sé bráðsmitandi, og líkurnar á smiti frá dýrum í menn því ennþá litlar. En í kjölfar þess að mannskæði stofn flensunnar fannst í Tyrklandi í gær og að flensan hefur borist til Rúmeníu og Rússlands, þykir samt full ástæða til ítrustu varúðarráðstafana. Evrópskir sóttvarnasérfræðingar héldu neyðarfund í Brüssel í dag, enda þykir nær öruggt að fuglaflensan dreifist um Evrópu næsta vor, þegar farfuglar koma til sumardvalar af svæðum þar sem flensan hefur nú þegar greinst. Embætti yfirdýralæknis hér á landi hefur fengið tæpar tvær milljónir til rannsókna. Þær verða notaðar til að rannsaka alifugla bæði inni og úti og ekki síst til að taka sýni úr farfuglunum sem koma næsta vor. Yfirdýralæknir hvetur fólk sem er á leiðinni til Tyrklands, Rúmeníu eða annarra landa þar sem flensan hefur gert vart við sig, til að gæta ýtrustu varúðar á ferðalögunum. Ferðamenn eru hvattir til að forðast snertingu við fugla og fiðurfénað hér á landi í 48 tvo sólarhringa eftir heimkomuna til Íslands, ef þeira hafa komist í snertingu við lifandi fiðurfénað á ferðalaginu. Þá eru tollayfirvöld beðin um að vera sérstaklega á varðbergi gagnvart öllum afurðum frá þessum löndum. Fáar ferðaskrifstofur á Íslandi eru með skipulagðar ferðir til Rúmeníu og Tyrklands á þessum árstíma. Úrvali Útsýn hafa samt borist nokkur símtöl í dag, frá fólki sem vill vita hvort óhætt sé að fara til Tyrklands og Rúmeníu. Að sögn starfsmanna þar hefur þó ekkert borið á að fólk ætli að hætta við, enda engin ástæða til þess. Aðrar ferðaskrifstofur sem fréttastofan hafði samband við, höfðu ekki fengið neinar fyrirspurnir vegna fuglaflensunnar í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×