Innlent

Börnunum haldið heima

Leikskólar í Kópavogi og víðar hafa brugðið á það ráð að loka einni deild á dag, svo foreldrar verða annað hvort að vera heima með börnum sínum þann dag eða bregða á önnur ráð þegar kemur að barnagæslu. „Ég er rosalega heppin, yfirmaður minn sýnir þessu mikinn skilning, en ég býst við því að þessir dagar dragist bara af sumarfríinu mínu,“ segir Kópavogsbúinn Gyða Gunnarsdóttir, sem starfar sem sérfræðingur hjá kreditkortafyrirtæki. Mannekla hefur rekið leikskólann sem dóttir Gyðu gengur í til að loka einni deild á dag, og hafa Gyða og maður hennar skipst á að vera heima með þriggja ára dóttur sinni um það bil einn dag í viku síðan um miðjan september. Aðrir foreldrar bjarga sér fyrir horn með því að biðja heimavinnandi ættingja um hjálp á meðan þetta ástand varir, eða kaupa sér pössun, og er ástandið auðvitað verra ef foreldrarnir eiga börn á fleiri en einni deild á leikskólanum. Þó segir Gyða að henni hafi verið tilkynnt nýlega að frá og með 25. október lagist ástandið, og þurfi hún þá bara að sækja barnið snemma einn dag í viku. „Okkur vantar á milli 18 og 20 starfsmenn til að fylla 13 til 14 stöðugildi á þeim 16 leikskólum sem Kópavogsbær rekur,“ segir Sesselja Hauksdóttir, leikskólafulltrúi Kópavogsbæs. Sesselja áréttar að þó ástandið virðist vera að batna á öðrum af þeim tveim leikskólum Kópavogs, þá er hún ekki of bjartsýn á að lausn sé í sjónmáli. „Ástandið á öðrum þeirra virðist vera að skríða saman í bili allavegana, en svo getur það verið breytt á morgun. Því miður er þetta bara svona,“ segir Sesselja. Þó engin börn eldri en tveggja ára séu á biðlista í Kópavogi, þá eru tíu til fimmtán börn enn ekki komin inn þó þeim hafi verið úthlutað leikskólaplássi, einfaldlega vegna þess að ekki er hægt að taka við þeim vegna manneklu, að sögn Sesselju. Ástandið er ekki mikið betra í Reykjavík, þar sem leikskólar hafa sumir hverjir brugðið á sama ráð og Kópavogsbær. Tvöhundruð og sjö börn eldri en átján mánaða voru á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík í byrjun þessa mánaðar. Það er fækkun um 46 börn síðan í byrjun september. Flest börn eru á biðlista í austurbæ Reykjavíkur, þá sérstaklega í Grafarholti og Breiðholti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×