Innlent

Sinntu ekki rannsókninni

Rannsókn á hópnauðgun konu í ágúst 2002 var ýtt til hliðar vegna alvarlegrar líkamsárásar sem upp kom sömu helgi. Þetta kemur fram í skýringum lögreglu í Reykjavík til Ríkissaksóknara eftir að verjandi konunnar hafði óskað eftir frekari upplýsingum um rannsóknina. Konan höfðaði sjálf mál á hendur mönnunum eftir að ríkissaksóknari ákvað að falla frá saksókn og tveir dómsmálaráðherrar höfðu neitað að liðsinna henni. Þó að Hæstiréttur telji það sannað að mennirnir hafi brotið á konunni, þá sæta þeir ekki refsingu vegna glæpsins, og mun hann ekki koma fram á sakaskrám þeirra. "En ég held þeir hljóti að vera sakbitnir og sektin mun vera eins og hlekkir um háls þeirra alla þeirra ævi. Þetta mál mun fylgja þeim þó það hafi verið einkamál," segir Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður, verjandi konunnar. "Þetta mál segir manni að kynfrelsi íslenskra kvenna nýtur ekki réttarverndar innan íslenska réttarvörslukerfisins. Það er verið að rústa líf þessara kvenna sem eru fórnarlömb kynferðisafbrotamanna, og réttarvörslukerfið virðist ekki gera sér grein fyrir þessu." Konan bar vitni um að í ágúst 2002 hefði hún kynnst mönnunum þremur á skemmtistað í Reykjavík og farið með þeim í íbúð í Breiðholti í þeirri trú að fleira fólk væri á leið í samkvæmið. Rétturinn heyrði hvernig einn mannanna, sem konan sagðist óttast, hafði frumkvæði að mökum við konuna gegn vilja hennar og kallaði svo á hina tvo. Allir þrír höfðu þeir síðan mök við konuna hver á eftir öðrum og samtímis. Hún leitaði hjálpar hjá neyðarlínunni sömu nótt og kærði nauðgunina í framhaldi af því. Í ársbyrjun 2003 ákvað ríkissaksóknari að falla frá saksókn á hendur mönnunum vegna skorts á sönnunargögnum. Lögmenn konunnar öfluðu nýrra gagna í tvígang og fóru með til saksóknara, en í bæði skiptin neituðu yfirvöld að taka málið upp aftur, segir Atli. Í september 2003 bað lögmaður konunnar dómsmálaráðherra um að niðurfelling saksóknarinnar yrði felld úr gildi, en Björn Bjarnason ráðherra hafnaði því. Áður segist konan hafa farið sjálf til Sólveigar Pétursdóttur, þáverandi dómsmálaráðherra, en ekki fengið neina aðstoð við málið. "Hún kom alls staðar að lokuðum dyrum," segir Atli. Konan stefndi því mönnunum og töldu bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur nægar sannanir vera fyrir því að mennirnir hefðu brotið gegn frelsi og persónu konunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×