Sport

Markalaust jafntefli í Grindavík

Grindavík og KR skildu jöfn suður með sjó í fjörugum markalausum leik þar sem mörg fín færi litu dagsins ljós. KR-ingar hafa ekki skorað sjálfir mark í 319 mínútur og eru án sigurs í fjórum síðustu leikjum. Markaþurrð stórliðs KR hélt áfram í Grindavík í gær þegar KR-ingar mættu varnarsinnuðu liði heimamanna. Engu að síður var leikurinn opinn og skemmtilegur en leikmenn voru einstakir klaufar uppi við markið. Grindvíkingar fögnuðu stiginu en úrslitin eru enn eitt áfallið fyrir KR og er óhætt að segja að það sé orðið verulega heitt undir Magnúsi Gylfasyni þjálfara enda liðið hvorki að spila vel né hala inn stig. Fyrri hálfleikur var mjög fjörugur. Gestirnir úr Vesturbænum byrjuðu með pressu hátt upp völlinn sem Grindvíkingar réðu illa við og þá sérstaklega Eyþór Atli Einarsson og Mathias Jack, sem virtust ekki vita í hvorn fótinn þeir áttu að stíga á köflum. Færin létu ekki á sér standa en KR-ingar voru klaufar fyrir framan markið.  Mesta hættan kom frá Grindvíkingnum fyrrverandi Grétari Ólafi Hjartarsyni, en honum voru mislagðir fætur eins og áður í sumar. Grindvíkingar voru lítt hættulegir fram á við en þeir fengu úrvalsfæri í tvígang þökk sé klaufaskap KR-varnarinnar en þeir nýttu færin sín illa rétt eins og gestirnir. Síðari hálfleikur gaf þeim fyrri lítið eftir. Fjölmörg færi litu dagsins ljós og flest þau fengu gestirnir en sem fyrr gekk lítið að koma tuðrunni yfir línuna. Grindavík átti nokkrar hættulegar rispur en sóknarleikur liðsins var frekar tilviljanakenndur. KR réð algjörlega ferðinni allt til enda á meðan heimamenn virtust vera fullsáttir með að fá eitt stig úr leiknum. Það fengu þeir og var stiginu vel fagnað í leikslok enda í fyrsta skipti í sumar sem Grindavík heldur hreinu. „Við erum sáttir enda gott að fá stig gegn KR,“ sagði Sinisa Kekic, varnarmaður Grindvíkinga.  „Við vörðumst vel, bæði lið fengu sín færi og ég tel að úrslitin hafi verið sanngjörn. Þetta er eitthvað til að byggja á og við mætum fullir sjálfstrausts í næsta leik.“ KR-ingar gáfu ekki færi á viðtali þegar eftir því var leitað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×