Innlent

Yfir 90 milljónir söfnuðust

Stefán Ingi Stefánsson hjá UNICEF segir það ótrúlegt hve rausnarlegt fólk hafi verið en yfir níutíu milljónir söfnuðust á uppboði til styrktar UNICEF í fyrrakvöld.
Stefán Ingi Stefánsson hjá UNICEF segir það ótrúlegt hve rausnarlegt fólk hafi verið en yfir níutíu milljónir söfnuðust á uppboði til styrktar UNICEF í fyrrakvöld.

Yfir níutíu milljónir króna söfnuðust á uppboði sem styrktaraðilar Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, UNICEF, stóðu fyrir í fyrrakvöld. Ágóðinn rennur til verkefna UNICEF í Gíneu-Bissá, sem lúta að uppbyggingu 50 skóla í landinu.

Á uppboðinu bauðst gestum meðal annars að kaupa sér einkatónleika með Cortes-feðgunum, Garðari og Garðari Thor. Einnig var hægt að borga fyrir að fá að vera veðurfréttamaður á fréttastofu NFS í einn dag.

"Það var alveg ótrúlegt hvað safnaðist af peningum þarna og magnað hve fólk var rausnarlegt," segir Stefán Ingi Stefánsson, fulltrúi UNICEF á Íslandi.

"Þetta verkefni mun stuðla að því að veita 24 þúsund börnum aðgang að menntun," segir Stefán. Sir Roger Moore flutti hátíðarræðu við þetta tilefni og vakti hún talsverða athygli og hreyfði mikið við mannskapnum að sögn Stefáns.

Moore talaði meðal annars um hvernig Audrey Hepburn hefði fyrst komið honum í kynni við UNICEF og að ekki hefði verið aftur snúið eftir það. Einnig sagði hann frá atvikum úr ferðum sínum sem velgjörðarsendiherra UNICEF og hvernig reynsla hans í því hlutverki hefði breytt lífi hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×