Erlent

Fékk 27 ára fangelsi

Hæstiréttur Spánar dæmdi í dag meintan leiðtoga Al-Qaida á Spáni í 27 ára fangelsi fyrir samsæri í tengslum við hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum 11. september 2001. Hann var sýknaður af ákærum um morð í árásunum. Imad Yarkas, meintur leiðtogi Al-Qaida á Spáni, var meðal annars ákærður fyrir að hafa komið á fundi þeirra sem lögðu á ráðin og tóku endanlegar ákvarðanir um hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september árið 2001, þar sem tæplega þrjú þúsund manns létu lífið. Hann var einn af tuttugu og tveimur meintum Al-Qaida liðum sem réttað hefur verið yfir að undanförnu, en sá eini sem ákærður var fyrir beina aðild að hryðjuverkaárásunum. Yarkas, sem er 42 ára, og af sýrlenskum uppruna, var fundinn sekur um samsæri um morð í tengslum við árásirnar, en af hinum sem ákærðir voru, voru sextán dæmdir fyrir aðild að hryðjuverkasamtökum og fimm voru sýknaðir. Dómurinn fordæmdi þá sem stunda glæpi og eru í tengslum við hryðjuverkasamtök, stuðla að hryðjuverkum eða fara fyrir slíkum samtökum. Glæpadómstóllinn dæmdi Imad Yarkas í 15 ára fangelsi fyrir samsæri í tengslum við árásirnar 11. september og í 12 ára fangelsi fyrir að vera leiðtogi hryðjuverkasamtaka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×