Erlent

Íranar sýna aukna samvinnu

Bandaríkjunum bölvað. Mótmæli voru höfð í frammi fyrir framan bandaríska sendiráðið í Teheran í gær en á morgun eru 26 ár liðin síðan herskáir stúdentar lögðu það undir sig og héldu gíslum í 444 daga.
Bandaríkjunum bölvað. Mótmæli voru höfð í frammi fyrir framan bandaríska sendiráðið í Teheran í gær en á morgun eru 26 ár liðin síðan herskáir stúdentar lögðu það undir sig og héldu gíslum í 444 daga.

Íranar hafa veitt eftirlitsmönnum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar IAEA heimild til að rannsaka leynilegar tilraunastöðvar hersins til að koma í veg fyrir að þeir verðir kærðir til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir brot á sáttmála um útbreiðslu kjarnorkuvopna.

Herstöðin í Parchin hefur lengi verið talin miðstöð kjarnorkutilrauna Írana en í ársbyrjun heimsóttu eftirlitsmenn IAEA undir ströngu eftirliti íranskra hermanna stöðina en fundu ekkert sem benti til tilrauna með kjarnorku. IAEA vill fá frekari aðgang að stöðinni til að geta leitað af sér allan grun. Þar sem Parchin er hernaðarsvæði er ljóst að verði geislavirkni vart á svæðinu verður erfiðara fyrir Írana að halda því fram að þeir þrói kjarnorku eingöngu í friðsamlegum tilgangi.

Eftir yfirlýsingar Mahmouds Ahmadinejad Íransforseta í síðustu viku um að Ísraelsríki skyldi þurrkað út af kortinu styrktist staða þeirra sem hafa sagt að koma yrði í veg fyrir að Íranir kæmu sér upp kjarnorkuvopnum. Fastlega er búist við að stjórn IAEA muni fjalla um kjarnorkuáætlun Írana síðar í þessum mánuði og því vilja þeir eflaust sýna samvinnu nú til að forðast refsiaðgerðir öryggisráðs SÞ sem annars vofa yfir þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×