Erlent

Ósáttir við kjör á Kastrup

Flugvél Sterling. Til greina kemur að flytja starfsemina frá Kaupmannahöfn til Malmö.
Flugvél Sterling. Til greina kemur að flytja starfsemina frá Kaupmannahöfn til Malmö.

Forsvarsmenn Sterling í Danmörku eru ósáttir við þau nýju kjör sem þeim hafa verið boðin á Kastrup-flugvelli. Af þeim sökum slitnaði upp úr samningaviðræðum á þriðjudag. Í viðtali við Berlingske Tidende í gær segir Niels Brix, talsmaður Sterling, að tilboð Kastrup hafi valdið vonbrigðum.

Hann segir að margt þurfi að breytast ef samningar eigi að nást. Telur Niels að ný verðskrá Kastrup hygli SAS flugfélaginu fram yfir aðra viðskiptavini flugvallarins. Þessu neitar fjármálastjóri Kastrup-flugvallar og segir tilboðið hafa verið hagstætt og geri ráð fyrir að verð muni haldast óbreytt næstu þrjú ár.

Á blaðamannafundi í kjölfar kaupanna á Sterling sagði Hannes Smárason, forstjóri FL-Group, að vel kæmi til greina að Sterling flytti alla sína starfsemi til Malmö. Lággjaldaflugfélagið Ryanair flýgur þangað í staðinn fyrir Kaupmannahöfn.

Gert er ráð fyrir því að samningaviðræðum verði framhaldið í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×