Erlent

Undirbúningur hryðjuverkaárásar var á lokastigi

Ástralska lögreglan handtók sautján grunaða hryðjuverkamenn í morgun og segist með því hafa komið í veg fyrir meiri háttar hryðjuverkaárás í landinu. Undirbúningur árásarinnar á að hafa verið á lokastigi.

Starfsemi þessa hryðjuverkahóps hefur verið til rannsóknar í sextán mánuði og lét lögreglan til skarar skríða í nótt þegar fimm hundruð lögreglumenn réðust til inngöngu í tuttugu og þrjú hús í Sydney og Melbourne. Hættuleg efni, ýmiss konar vopn og tölvur voru gerðar upptækar. Ekki hefur verið gefið upp hvar átti að fremja árásirnar, eingöngu að þær hafi beinst að saklausum borgurum. Og ljóst þykir að mennirnir hafi verið í tengslum við alþjóðleg hryðjuverkasamtök. Hægt var að staðfesta tengls milli kemísku efnanna sem fundust og kemísku efnanna sem notuð voru í hryðjuverkaárásunum í London.

Bálreiðir stuðningsmenn hinna grunuðu söfnuðust saman fyrir framan dómshúsið í Melbourne og tóku reiði sína út á myndatökumanni. Einn hinna grunuðu liggur mikið slasaður á sjúkrahúsi eftir skotbardaga við lögreglu. Þó að áttatíu og átta Ástralir hafi látið lífið í sprengingunum á Balí fyrir þremur árum og sprengjuárás hafi verið gerð á ástralska sendiráðið í Indónesíu í fyrra, þá hefur aldrei verið gerð hryðjuverkaárás á landsvæði Ástralíu sjálfrar. Ný löggjöf um varnir gegn hryðjuverkum tók gildi í Ástralíu á fimmtudaginn. Hún færir lögreglunni aukin völd og má vera að þess vegna hafi verið beðið með aðgerðir fram á síðustu stundu. Löggjöfin hefur verið gagnrýnd líkt og víða annars staðar, þar sem óttast er að hún gefi færi á að mannréttindi verði ekki virt. Forsætisráðherrann hefur blásið á slíkt. Hann segir að ef hann geti tryggt öryggi almennings muni hann gera það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×