Erlent

Grunaðir hryðjuverkamenn handteknir í Ástralíu

Komið með hina meintu hryðjuverkamenn í dómhús í Sydney í morgun.
Komið með hina meintu hryðjuverkamenn í dómhús í Sydney í morgun. MYND/AP

Ástralska lögreglan handtók í gær sextán manns sem grunaðir eru um að hafa lagt á ráðin um stórfellda hryðjuverkaárás. Talið er að undirbúningur hryðjuverkaárásanna hafi verið á lokastigi. Á meðal þeirra sem var handtekinn var róttækur múslímaklerkur sem sakaður er um að hafa stýrt undirbúningi árásanna.

Lögreglan gerði áhlaup í tveimur borgum í Ástralíu á sama tíma í gær, en sjö voru handteknir í Sydney og níu í Melbourne. Til skotbardaga kom milli lögreglu og meintra hryðjuverkamanna við handtöku og særðist bæði lögreglumaður og einn þeirra sem handtekinn var. Við húsleit fundust vopn og efni svipuð þeim sem notuð voru í hryðjuverkaárásunum í London síðastliðið sumar.

John Howard, forætisráðherra Ástralíu, sagði að fregnirnar af undirbúningi hryðjuverkaárása kæmu sér ekki á óvart. Þær sýndu aðeins að Ástralir væru líkt og aðrir ekki óhultir fyrir hryðjuverkaógninni. Rannsókn vegna málsins hefur staðið yfir í sextán mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×