Erlent

Utan við alþjóðlegar kröfur

Sigurviss. Ilham Aliev, forseti Aserbaídsjans, hafði heitið sanngjörnum og heiðarlegum kosningum en við það virðist hins vegar ekki hafa verið staðið.
Sigurviss. Ilham Aliev, forseti Aserbaídsjans, hafði heitið sanngjörnum og heiðarlegum kosningum en við það virðist hins vegar ekki hafa verið staðið.

Kosningaeftirlitsmenn Öryggissamvinnustofnunar Evrópu ÖSE sem fylgdust með þingkosningunum í Aserbaídsjan um helgina segja þær ekki uppfylla alþjóðlegar kröfur. Þegar næstum 93 prósent atkvæðanna höfðu verið talin í gær höfðu þingmenn stjórnarflokkanna forystu í meirihluta kjördæmanna. Yfirlýstir stjórnarandstæðingar virtust hins vegar einungis ætla að fá tíu þingsæti af 125.

Kosningaeftirlitsmenn ÖSE segjast hafa séð starfsmenn kjörstaða hafa áhrif á val kjósenda, í kjördeildum var að finna óviðkomandi aðila sem skiptu sér af kjörfundinum og nokkur dæmi voru um að hátt hafi verið haft við kjörkassa og útfylltum atkvæðaseðlum komið þar fyrir. Auk þess virðast meinbugir hafa verið á talningu atkvæða og takmarkanir settar á samkomur fólks.

"Ágallarnir sem við urðum áskynja, sérstaklega á kjördag, hafa leitt okkur að þeirri niðurstöðu að kosningarnar uppfylltu ekki þær alþjóðaskuldbindingar sem Aserbaídsjan hefur tekið á sig," sagði Alcee L. Hastings, forseti allsherjarþings ÖSE, í yfirlýsingu í gær. Úrskurður ÖSE er vatn á myllu stjórnarandstæðinga sem gagnrýnt hafa kosningarnar harðlega. Þeir boða til fjöldamótmæla á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×