Innlent

Fullkominn staður til rannsókna

Ísland er frábær staður til að þróa nýja tækni og gera tilraunir með aðferðir sem gætu skipt sköpum í flugumferðarstjórnun. Þetta segja sérfræðingar hjá NASA, geimvísindastofnun Bandaríkjanna, og MIT-háskólanum í Boston, sem ásamt Háskóla Íslands, vinna að verkefni um flugstjórn framtíðarinnar. Háskóli Íslands hefur um árabil, ásamt Flugmálastjórn Íslands, haft frumkvæði að rannsóknum á flugumferðarstjórnun og meðal annars þróað hugbúnað fyrir hermi, sem nýtist við ýmis konar prófanir. Háskólinn hefur einnig átt í samstarfi við MIT háskólann í Boston við að þróa rannsóknarverkefni, sem miðar að því að prófa nýjar aðferðir og framsetningu gagna við eftirlit og stjórnun flugumferðar, og kemur geimvísindastofnun Bandaríkjanna ennfremur að því verkefni. Með þróun frumgerðar að flugumferðarstjórnarkerfi, sem flugumferðarstjórar hjá Flugmálastjórn meta útfrá notkun og öryggi, er talið mögulegt að sjá fyrir vandamál sem upp koma í framtíðinni. John Hansman, prófessor við MIT í Boston, segir Ísland hafa miðlæga staðsetningu þar sem það er miðja vegu á milli ameríska og breskra flugkerfa og því er það fullkominn prófunarstaður til þess að prófa nýja tækni og starfshætti. Hann sagði samstarfið hafa staðið í nokkur ár með Háskóla Íslands og Flugmálastjórn við rannsóknir á atriðum sem snúa að hinum mannlega þætti. Nasa er að vinna að ýmsum tækniútfærslum í samvinnu við MIT og Flugmálastjórn Bandaríkjanna að skilvirkari flugumferðarstjórnun og tækniútfærslunarnar taka bæði til flugvéla og flugumferðarstjórnunar á jörðu niðri. Þessi samvinna kemur vel út hér og tilraunaumhverfið er einnig gott, sagði John Hansman að lokum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×