Erlent

100 þúsund manna borg í hættu

Illa hefur gengið að ráða niðurlögum skógareldanna í Portúgal og sendi ríkisstjórn landsins út hjálparbeiðni til nágrannaþjóða sinna um helgina. Nokkrar Evrópuþjóðir hafa þegar brugðist við ákallinu og sendu Frakkar og Spánverjar hvorir um sig tvær flugvélar til Portúgal, sem nota má til slökkvistarfa. Ítalir sendu eina vél í gær. Þjóðverjar hafa sagst munu senda þrjár lögregluþyrlur með sérfræðingum sem aðstoða eigi portúgalska slökkviliðsmenn. Alls berjast 2700 slökkviliðsmenn við eldana sem geisa á 27 stöðum víðs vegar um Portúgal. Fimmtán manns hafa látið lífið og 140 þúsund hektarar lands orðið eldinum að bráð. Mið- og norðurhluti Portúgal hafa orðið verst úti í eldunum og hefur þurft að rýma fjölda þorpa. Alvarlegustu skógareldarnir um helgina voru í Coimbra héraði tæplega 200 kílómetra norður af höfuðborginni Lissabon. Skógareldarnir nálgast nú stærstu borgar héraðisins, úr tveimur áttum og þegar hafa yfir tíu hús skemmst í úthverfi borgarinnar. Nokkur hverfi hafa verið rýmd, en íbúar eru um 100 þúsund og er borgin hin þriðja stærsta í Portúgal. Reykur og eldtungur sjást alla leið til Lissabon Mestu þurrkar frá upphafi mælinga eru nú í Portúgal og gífurlegir hitar hafa verið að undanförnu. Miklir vindar blésu að nýju í glæður skógareldanna um helgina sem slökktir höfðu verið um miðja síðustu viku. Skilyrði til slökkvistarfa næstu daga eru erfið því áfram er spáð miklum hita og roki fram á miðvikudag þegar vonast er eftir úrkomu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×