Innlent

Nefnd SÞ vill stefnubreytingu

Nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám kynþáttamisréttis hefur lýst áhyggjum sínum af því að fjárveitingar til Mannréttindaskrifstofu Íslands hafi verið felldar úr fjárlögum 2005. Nefndin hvetur stjórnvöld til að halda áfram samstarfi við samtök sem berjast gegn kynþáttamisrétti, þ.m.t að stuðla að því að tryggja rekstrargrundvöll og sjálfstæði slíkra samtaka. Nefndin mælir með því að alþjóðasamningur um afnám alls kynþáttamisréttis verði lögfestur á Íslandi til að tryggja heildstæða vernd gegn kynþáttamisrétti. Nefndin hvetur yfirvöld til að móti virkari stefnu til að koma í veg fyrir kynþáttamisrétti og skylda mismunun.  Hún bendir á að fyrirbyggjandi aðgerðir skipi stóran sess í samningnum og hvetur stjórnvöld til að grípa til beinna aðgerða til að koma í veg fyrir kynþáttafordóma á öllum sviðum mannlífsins. Nefndin hvetur íslensk stjórnvöld til að taka til athugunar setningu heildstæðrar löggjafar sem bannar mismunun þar sem m.a. verði  tryggð raunhæf úrræði til að koma í veg fyrir kynþáttamisrétti hvort sem er á sviði  einkaréttar eða í stjórnsýslunni.  Nefndin mælist einnig til þess að stjórnvöld fullgildi alþjóðasamninga um stöðu ríkisfangslausra frá 1954 og 1961. Nefndin lýsir áhyggjum sínum af upplýsingum þess efnis að hælisumsóknir séu ekki alltaf rétt meðhöndlaðar hjá landamæralögreglu og mælir með því að skipulögð fræðsla verði aukin til að tryggja að  lögregla þekki nauðsynlega þætti flóttamannaverndar og hafi upplýsingar um ástand í upprunalöndum hælisleitenda.  Nefndin mælir með því að stjórnvöld endurskoði 24 ára aldursskilyrði vegna veitingar dvalarleyfa fyrir maka og skoði aðrar leiðir til að koma í veg fyrir málamynda – eða nauðungarhjónabönd. Þá lýsti nefndin áhyggjum sínum af því fyrirkomulagi að veita atvinnurekendum en ekki hlutaðeigandi starfsmönnum bráðabirgðatvinnuleyfi. Hún mælist til að stjórnvöld bæti réttarstöðu erlendra verkamanna og komi í veg fyrir að þeir verði fyrir mismunun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×