Innlent

Hryggskekkja vaxandi vandamál

Hryggskekkja barna og unglinga vegna langvarandi setu er vaxandi vandamál, en dæmi eru um að börn niður í 10 ára aldur sæki þjónustu sjúkraþjálfara vegna stoðkerfisvandamála. Langvarandi seta getur valdið hryggskekkju og er sífellt meira um að börn og unglingar leiti til sjúkraþjálfara vegna þessa. Bjarni Stefán Konráðsson íþróttakennari segist taka eftir minna þoli, vöðvastyrk og samhæfingu hjá unglingum. Hann segist láta krakka gera ákveðnar æfingar til þess að komast að því hvort vöðvakerfið þjóni sínu hlutverki en það geri það ekki í mörgum tilfellum. Þetta eigi aðallega við um bakvöðva en styrkur þeirra sé mun minni en hann hafi reiknað með og hafi verið áður. Bjarni segir áunna hryggskekkju vafalaust mega laga að einhverju leyti með réttum hreyfingum og meðferð en hann segir aðalatriðið þó vera að krakkar læri að beita líkamanum rétt. Hann nefnir sem dæmi að meðal-Þjóðverji sitji í 14 tíma á dag og ef fólki gefi sér að þeir sofi í átta tíma þá séu ekki margir tímar eftir til hreyfingar. Hann sé nokkuð klár á því að staðan sé ekki ósvipuð hér á landi. Þá eru leikfimikennarar farnir að taka næringafræðina meira inn í kennslu og kenna unglingum að borða rétt. Íþróttakennarafélagið er með námskeið á hverju ári og segir Bjarni staðreyndir eins og áunna hryggskekkju barna og unglinga reglulegt áhyggjuefni kennaranna. Dæmi séu um að krakkar allt niður í tíu ára leiti til sjúkraþjálfara vegna stoðkerfisvandamála og vegna þess að þau geti ekki staðið undir sjálfum sér. Íþróttakennarar taki þetta því reglulega fyrir í tímum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×