Erlent

Sá sjóræningjann glotta við tönn

Áhöfn og farþegar skemmtiferðaskipsins Seabourn Spirit komust í hann krappan úti fyrir ströndum Sómalíu um helgina þegar sjóræningjar gerðu tilraun til að ræna skipinu. "Þetta var óhugnanleg upplifun, ég get fullvissað þig um það," sagði Charles Supple, stríðshetja úr síðari heimsstyrjöldinni og einn af 160 farþegum Seabourn Spirit, í samtali við AP-fréttastofuna á mánudag, en þá lagði skipið að bryggju á Seychelleseyjum í Indlandshafi.

Supple ætlaði að taka mynd af hraðbáti sem kom siglandi að skipinu en í gegnum linsuna sá hann mann með sprengjuvörpu sem allt í einu kom blossi úr. "Ég fleygði frá mér myndavélinni og beygði mig. Sprengjan sprakk tveimur þilförum fyrir ofan mig. Ég sver að ég sá gaurinn með sprengjuvörpuna glotta við tönn."

Áhöfn skemmtiferðaskipsins tókst að breyta stefnu og auka hraðann og stinga þannig sjóræningjana af. Mikil mildi þótti að enginn skyldi slasast alvarlega því byssukúlum og handsprengjum rigndi yfir skipið um tíma.

Sjórán hafa mjög færst í vöxt undan ströndum Sómalíu en það sem af er árinu hefur tuttugu skipum verið rænt. Kjöraðstæður eru til sjórána á þessum slóðum þar sem upplausn ríkir í Sómalíu og löggæsla í efnahagslögsögunni tæpast forgangsatriði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×