Bæjarstjóraskipti í Kópavogi
"Það koma alltaf nýir siðir með nýjum mönnum en breytingar verða ekki byltingarkenndar," sagði Gunnar I. Birgisson þegar hann tók við starfi bæjarstjóra í Kópavogi í gær. Hansína Ásta Björgvinsdóttir hefur verið bæjarstjóri frá því að Sigurður Geirdal lést á síðasta ári. Hansína og Gunnar hafa stólaskipti því hún tekur nú við starfi formanns bæjarráðs Kópavogs en Gunnar hefur verið formaður ráðsins frá 1990. Gunnar lætur af þingmennsku fyrsta október.