Erlent

Mega beita öllum brögðum

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, segir Ísraelsher mega beita öllum brögðum til að koma herskáum Palestínumönnum frá. Það sé nauðsynlegt ef friður eigi að nást. Að minnsta kosti fimm Palestínumenn létu lífið á Gaza og á Vesturbakkanum í gærkvöld í loftárásum ísraelska hersins á svæðið. Sharon tilkynnti í sjónvarpsviðtali að hann hefði skipað hernum að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir gegn palestínskum hryðjuverkasamtökum og sagði hann í samtali við fjölmiðla að engar takmarkanir væru á skipununum til hersins. Mikilvægt væri að koma herskáum hryðjuverkamönnum Palestínumanna úr umferð, ef friður ætti að nást á svæðinu. Fjórir þeirra sem létust í árásum Ísraela í gærkvöld voru herskáir meðlimir úr Hamas-samtökunum. Fyrr um daginn féllu tveir óbreyttir borgarar og særðust 25 í átökum Hamas og palestínsku lögreglunnar á Gaza. Átökin brutust út er lögreglumennirnir leituðu manna sem stóðu á bak við flugskeytaárásir á byggðir Ísraela en ísraelsk kona lést í einni af árásunum. Palestínumenn létu þó ekki sitt eftir liggja og skutu nokkrum flugskeytum yfir landamæri Gasasvæðisins og Ísraels í nótt. Einungis er um mánuður þar til brottflutningur Ísraela frá Gasa á að hefjast. Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mun heimsækja svæðið í næstu viku en báðir aðilar segjast vilja að átökum linni. Yfirmaður palestínsku öryggissveitanna hefur meðal annars sagt að sveitirnar muni ekki hika við að koma á lögum og reglu á sjálfstjórnarsvæðunum og að flugskeytaárásir herskárra samtaka Palestínumanna verði stöðvaðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×