Innlent

Vaxtalaus listmunalán

Vaxtalaus listmunalán þykja hafa hleypt lífi í listmunamarkaðinn hér á landi og opnað almenningi leið að samtímalist. Þegar hefur verið gengið frá tvö hundruð og tuttugu lánum, fyrir rúmlega fjörutíu og þrjár milljónir króna. Eitt ár er nú liðið frá því einstaklingum var fyrst boðið upp á vaxtalaus listmunalán, en lánin voru veitt að frumkvæði menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar, og samkvæmt samkomulagi við gallerí, samtök listamanna og KB-banka. Lánin hafa mælst mjög vel fyrir, en 16 gallerí eru aðilar að samkomulaginu. Listmunalánunum er ætlað að hvetja almenning til að njóta samtímalistar og aðstoða myndlistarunnendur við að kaupa verk. Listaverkin verða að vera eftir lifandi listamenn og mega ekki vera eldri en 60 ára við kaup, en einungis er um að ræða frumsölu verka. Lágmarksfjárhæð listmunaláns miðast við 36 þúsund krónur og hámarksfjárhæð við 600 þúsund, en Reykjavíkurborg og KB-banki skuldbundu sig til að leggja fram eina milljón króna á ári í þrjú ár, til að standa straum af hluta affalla skuldabréfanna. Stefán Jón Hafstein, formaður Menningarmálaráðs, segir að þetta hafi verið ævintýri líkast og salan með þessum lánum er orðin 43 milljónir króna. Og þegar upp er staðið þá getur orðið til markaður fyrir myndlist fyrir 100 milljónir. Þetta er fyrst og fremst núlifandi listamönnum til góða og einnig galleríum, segir Stefán Jón.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×